Fréttir

Hér getur þú fylgst með nýjustu fréttum og tilkynningum um verkefni, samstarf og tækninýjungar. Við birtum reglulega uppfærslur um þróun mála, viðburði og annað sem er í gangi hjá okkur.

Ný heimasíða DMM Lausna í loftið

1. september 2025

Ný heimasíða DMM Lausna fór í loftið í dag. Síðan var sett upp af Dacoda og við gerð hennar nutum við ráðgjafar Jakobs Ómarsson, við þökkum Jakobi og Dacoda mönnum kærlega fyrir flotta vinnu. Við teljum að vel hafi tekist til, síðan kemur á framfæri megináherslum DMM og eigna- og viðhaldsstjórnunar og flæði er þægilegt og einfalt. Eins og fram kemur á síðunni, þá erum við alltaf tilbúnir til skrafs og ráðagjafar og frekari upplýsingamiðlun til þeirra fyrirtækja sem hafa hug á að nýta sér DMM fyrir markvissa og skilvirka eigna- og viðhaldsstjórnun.

Grindavík notar DMM

5. ágúst 2025

Eins og við vitum þá glíma starfsmenn og íbúar Grindavíkurbæjar við fordæmalausar aðstæður. Grindvíkingar eru þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og vinna ótrauðir að því að lagfæra innviði og gera bæinn öruggan. Áður en jarðhræringarnar hófust var Grindavíkurbær kominn vel af stað með notkun DMM fyrir eigna- og viðhaldsstjórnun, ýmsar lagfæringar og þó í sér í lagi fyrirbyggjandi viðhald og eftirlit af ýmsu tagi. Eitt af því sem notkun hugbúnaðarkerfis á borð við DMM felur í sér er ákveðinn agi og festa sem aftur leiðir til þess að hin ýmsu verk eru tekin fastari tökum en ella, skipulag er betra, verk eru unnin á hagkvæmari máta og frágangur verka og tilheyrandi gagna er betri en ella. Það er vel þekkt að þegar bæjarfélög, fyrirtæki og stofnanir lenda í óræðum aðstæðum þá bitnar það á starfssemi sem í eðli sínu einkennist af festu og skipulagi, sem á vel að merkja við um eigna- og viðhaldsstjórnun. Það losnar um festuna, málum er reddað og það sem varðar skipulag og frágang er "kannski skráð seinna", sem þó sjaldan verður. Sú er ekki raunin í Grindavík, verk og tilheyrandi upplýsingar varðandi eignir bæjarins, ástandsmat, tjónamat og lagfæringar eru eftir sem áður skráðar í DMM. Þetta var, eins og komið hefur fram á kynningum hjá Sigurði R. Karlssyni hjá Grindavíkurbæ, meðvituð ákvörðun sem var tekinn strax 11. nóvember 2023, það er að segja að öll frávik og meðhöndlun þeirra skuli vera skráð í DMM og það hefur einfaldað ferli og reynst grunnur að vel heppnuðum aðgerðum í framhaldinu. Þetta er frábær fyrirmynd fyrir hvert það fyrirtæki, bæjarfélag eða stofnun sem er að innleiða markvissari vinnubrögð á vettvangi viðhaldsstjórnunar og þá yfirleitt við betri aðstæður en Grindvíkingar glíma við núna. Vel gert!

Útdeiling verka í DMM, flottar nýjungar

6. júní 2025

DMM hefur lengi boðið að hægt sé að skrá vinnutiltæki starfsmanna og áætla tíma á verk eftir hlutverkum starfsmanna og niður á einstaka starfsmenn. Eins er í DMM hægt að útbúa svokölluð forvöl til að geyma og vista tilteknar skjámyndir í DMM enda bjóða kerfi eins og DMM upp á svo gott sem óendanlega möguleika til að kalla fram uppllýsingar og flokka og því mikilvægt að geta "vistað" valdar myndir sem notandi vill nýta sér aftur og aftur. Það er mjög algengt hjá fyrirtækjum sem reka markvissa eigna- og viðhaldsstjórnun að skipuleggja vel næstu viku og gæta þá þess sér í lagi að verk séu vel tímasett, að þau til tilbúin til framkvæmda og að vinnuálagi sé skynsamlega dreift á milli starfsmanna. Í vefgátt DMM, DMM 4, hefur birtingarmynd þessara gagna nú verið gerð myndrænni þannig að skipuleggjendur verka séu fljótir að sjá hvort útdeiling verka niður á einstaka starfsmenn og hóp starfsmanna sé skynsamleg. Hægt er að vista slíkar sýnir sem forvöl og pakka þeim inn í svokölluð sjónarhorn. Sjónarhorn geta þannig geymt valdar lifandi "upplýsinga - myndir" úr DMM sem stjórnendur eru fljótir að kalla fram á t.d. mánudagsfundum eða morgunfundum til að fara yfir það sem er fyrirliggjandi með starfsmönnum og fínstillt eins og hentar.

Skipulag í viðhaldsstjórnun og vorfundur EVS

15. maí 2025

Vorfundur Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélags Íslands, EVS, var haldinn á Grundartanga hjá Norðuráli fimmtudaginn 15. maí. Norðurál bauð upp á vettvangsskoðun og það var virkilega gaman að sjá og heyra hvernig starfsseminn hefur þroskast, tækninýjungar óspart nýttar og aðbúnaður starfsfólks er til fyrirmyndar. Ásmundur Jónsson frá Alvotech kynnti íslenska þýðingu á staðlinum EN 17007 Maintenance processes and associated indicators sem verður tilbúinn síðla sumars. Þessi staðall er ættaður frá CEN/TC319 en í þeirri Technical Committee sitja margir fulltrúar frá evrópsku viðhaldsstjórnunar samtökunum EFNMS enda gegnir staðallinn ríku hlutverki hjá EFNMS fyrir stöðlun upplýsingamiðlunar og sem kjölfesta í námskeiðshaldi. EVS hefur kostað þýðingu þessa staðals sem verður miðlað til aðildarfélaga og þeirra sem taka EVS námskeið til vottunar í viðhaldsstjórnun. Ásmundur fjallaði einnig um frammistöðumat í viðhaldsstjórnun. Garðar Garðarsson frá Landsvirkjun var með erindi um evrópskar áherslur í eignastýringu og Guðmundur Jón Bjarnason frá DMM Lausnum kynnti EVS námskeiðið til vottunar viðhaldsstjóra sem verður haldið í haust og er því sem næst fullbókað en stefnt er að halda það árlega að hausti. Síðast en ekki síst var Auður Freyja Kjartansdóttir með kynningu á viðhaldsskipulagi Norðuráls, "planning and scheduling". Auður ávarpaði m.a. hvernig verk eru skipulögð frá viku til viku þ.a. nýting mannafla sé sem best, varahlutir og önnur aðföng gerð klár og öryggis gætt í hvívetna. Skipulag viðhaldsmála skiptir miklu máli fyrir flæði verka almennt séð og þann árangur sem næst á vettvangi viðhaldsmála og það er mikilvægt hlutverk hugbúnaðarkerfa fyrir eigna- og viðhaldsstjórnun að styðja við skipulagið og miðlun verka.

EFNMS GA fundur í Vilnius

10. maí 2025

Evrópsku viðhaldsstjórnunarsamtökin, EFNMS, halda svokallaða GA, General Assembly, fundi tvisvar á ári. Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélag Íslands, EVS, er aðili að EFNMS og tekur þátt í starfi EFNMS. Þann 9. - 10. maí var GA fundurinn haldinn í Vilnius Litháen. Á fundinum var m.a. rætt um EFNMS Body of Knowledge, samræmingu við námskeiðhalda fyrir bæði eigna- og viðhaldsstjórnun og sjálfbærni í viðhaldsstjórnun í tengslum við verkefnið More4Sustainability þar sem belgíska viðhaldsstjórnunrfélagið, BEMAS, gegnir stóru hlutverki. Loks var nýr formaður EFNMS kosinn, í framboði voru Mia Ilkko f.h. sænska viðhaldsstjórnunarfélagins og Diego Galar f.h. þess spænska. Diego vann kosningarnar og mun taka við sem formaður af Cosmas Vamvalis hinum gríska í haust. Fulltrúar EVS á fundinum voru Garðar Garðarasson frá Landsvirkjun sem er meðlimur í EAMC nefndinni um eignastjórnun, Ásmundur Jónsson frá Alvotech sem er meðlimur í EMAC nefndinni um staðla og vottanir og Guðmundur Jón Bjarnason frá DMM Lausnum sem er meðlimur í ECC nefndinni um námskeið og vottun fólks sem starfar á vettvangi viðhaldsmála. Á meðfylgjandi mynd eu frá vinstri til hægri Ásmundur, Guðmundur og Garðar standandi á Íslandsstræti í Vilnius, en strætið fékk það nafn í kjölfar þess að Ísland var fyrsta þjóðin til að viðurkenna sjálfstæði Litháen frá Rússlandi árið 1991.

EVS / EFNMS námskeið í haust

28. mars 2025

Framundan er flott haustnámskeið fyrir eigna- og viðhaldsstjórnun, sjá hér nánar upplýsingar frá Iðunni sem fóstrar námskeiðið, Eigna- og viðhaldsstjórnun. Nú þegar er kominn slatti af skráningum og við eigum frekar von á því að námskeiðið muni fyllast, við mælum því með því að þeir sem hafi áhuga skrái sig sem fyrst. Námskeiðið er bæði fyrir reynslubolta og þau sem eru nýkomin inn á "þennan völl". Stefnt er að því að námskeiðið verði árlegur viðburður að hausti, hægt er að hafa samband við Iðunni og skrá sig á biðlista. Námskeiðið er á vegum EVS, Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélag Íslands, sem er óhagnaðardrifið félag með það að markmiði að miðla þekkingu og praktískum atriðum varðandi eigna- og viðhaldsstjórnunar til og á milli fyrirtækja á Íslandi. DMM Lausnir eru einn af stofnaðilum félagsins enda er það eitt af stefnumarkmiðum DMM Lausna að vinna með og fyrir íslenskt samfélag á þessum vettvangi. Um er að að ræða námskeið til evrópskrar vottunar í eigna og viðhaldsstjórnun, EFNMS vottunar, en EVS er meðlimur í EFNMS, evrópska eigna- og viðhaldsstjórnunarfélaginu og situr undirritaður í ECC nefnd EFNMS sem hefur með að gera rammaverk fyrir vottun á vettvangi eigna og vihaldsstjórnunar í Evrópu. Sænska ráðgjafafyrirtækið Idhammar sér um kennsluna og Iðan hýsir námskeiðið. Í hlekknum hér að ofan er að finna frekari lýsingu.

DMM styður við gæðakerfi HS Veitna

14. febrúar 2025

DMM gegnir lykilhlutverki hjá HS Veitum þegar kemur að eftirliti, ástandsmati og viðhaldi dreifikerfa, sem og við uppbyggingu og stækkun þeirra.  HS Veitur fylgja skjalfestu og viðurkenndu verklagi sem DMM styður við. Þannig er tryggt að ferlum sé fylgt eftir á skipulegan, sýnilegan og rekjanlegan hátt, sem stuðlar að öryggi starfsfólks, áreiðanleika í rekstri og góðri þjónustu við viðskiptavini.  DMM er því mikilvægur hluti af gæðakerfi HS Veitna, bæði í daglegum rekstri og við innri og ytri úttektir. Nýverið fór fram innri úttekt byggð á gögnum úr DMM. Úttektin leiddi í ljós góðan árangur starfsfólks og kveikti jafnframt nýjar hugmyndir um enn meiri skilvirkni.

Góðar viðbætur við Mitt DMM appið

15. október 2024

Í nýlegri uppfærslu í Play Store og App Store bættust við góðir virknimöguleikar fyrir verk annars vegar og eignir og varahluti hins vegar. Hvað verk varðar, þá er nú stutt betur við stofnum verka frá grunni í appinu og hvað eignir og varahluti varðar, þá er nú enn meiri stuðningur við strikamerki og barkóða fyrir ýmis notendatilfelli á borð við að sækja upplýsingar, breyta færslum og tengja eignir eða varahluti við verk eða tilkynningar.

Eignaskráning í DMM og haustfundur EVS

26. september 2024

Haustfundur Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélags Íslands, EVS, var haldinn þann 26.9.2024 í Ægi Brugghúsi Hafnafirði. Steinar Ísfeld Ómarsson, HS Orku, Ingvar Hafsteinsson, Landsvirkjun og Þórður Sigurbjartsson, Norðuráli, héldu áhugaverð erindi um eignaskráningu. Steinar og Ingvar kynntu hvernig DMM er notað til að halda utan um kóðun og skráningu umfangsmikilla eignasafna HS Orku og Landsvirkjunar. Það kom fram í tali þeirra beggja að vönduð og öguð eignaskráning er mikilvæg kjölfesta í rekstri þeirra fyrirtækja á marga vegu og þá til dæmis fyrir nýframkvæmdir, upplýsingaöflun, rekstur, viðhald og skipulag vinnu og skráninga almennt séð. Garðar Garðarsson, Landsvirkjun kynnti spennandi námskeið um eignastjórnun sem EFNMS mun bjóða upp á í samstarfi við WPiAM. Loks kynnti Guðmundur Jón Bjarnason námskeið sem EVS mun halda í samstarfi við Iðuna, EFNMS og Idhammar að hausti 2025. Síðast en ekki síst voru fyrstu íslensku viðhaldsstjórarnir sem hlotið hafa evrópska vottun heiðraðir. Þetta voru þeir Ingólfur Örn Jónsson frá Landsvirkjun og Jón Freyr Benediktsson frá Hringrás, þeim var afhent EFNMS certification, European Expert in Maintenance Management. Auk þess var Gunnari Helga Birgissyni afhent EFNMS Pass. þekkingarvottorð á vettvangi eigna- og viðhaldsstjórnunar. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju. Undir lok fundarins tók Óskar frá Iðunni stutt viðtal við Steinar Ísfeld Ómarsson, formann EVS, og Guðmund Jón Bjarnason, fulltrúa EVS hjá evrópusamtökun eigna- og viðhaldsstjórnar, EFNMS.

Ný vefgátt DMM, DMM 4, komin í loftið

2. september 2024

Ný vefgátt DMM, DMM 4.0 er komin í loftið. Vefgáttin hefur verið í prufunotkun hjá nokkrum viðskiptavinum á þessu ári og fengið mjög góðar viðtökur. Hún er aðgengileg á vefsíðum viðskiptavina og einnig sem "application" í Microsoft Store, App Store og Play Store.